Tour de France hefst innan skamms. Þessi hjólreiðakeppni er talin vera ein mest krefjandi keppni í heimi. Hún stendur yfir í 21 dag í röð og þátttakendur þurfa að hjóla mislangar vegalengdir í náttúru Frakklands – allt að 200 km á dag. Já – upp og niður þverbrattar brekkur. Samkeppnin er gríðarleg og ekki aðeins á milli liða heldur einnig innan liða – en það er alls enginn leikur að komast í liðið. Og þeir sem komast í liðið verða að fara í æfingabúðir og vera í burtu frá fjölskyldu og vinum í marga mánuði á ári og æfingarnar eru allt annað en notalegar. Sú freisting er alltaf til staðar að nota óvönduð meðul. Einn frægasti hjólreiðamaður í heimi, Lance Armstrong, var sakaður um að hafa svindlað með ýmis konar hætti til þess að vinna þessa keppni. Og hann er ekki sá eini. Í Tour de France er allt lagt undir.
Í Tour de France kemur samkeppnin fram í sinni hörðustu og óvægnustu mynd þar sem jafnvel smæstu atriði skipta máli og sigur fæst aðeins ef margar litlar ákvarðanir eru teknar rétt yfir langan tíma. Hér gilda því nákvæmlega sömu lögmál og í fyrirtækjarekstri á frjálsum markaði. Lykillinn að sigri liggur í undirbúningi og framkvæmd.
Það hefur löngum verið sagt að sá háttur að nota ávallt sömu aðferðir og bregðast alltaf eins við sömu hlutum, en samt búast við breyttri niðurstöðu í hvert skipti, sé skilgreining á geðveiki. Þetta á jafnt við um afreksfólk og fyrirtæki. Ef þið sem teymi íþróttamanna og aðstoðarfólks ætlið að skara fram úr í keppni líkt og Tour de France, skiptir öllu að ná fram samkeppnisyfirburðum með einhverjum hætti. Það gæti gerst með því að hanna æfingaáætlun sem hefur eitthvað umfram samkeppnisaðilana. Hér má rifja upp orð Henry Ford sem sagði: „Hermikrákur sigra ekki“ (e. success doesn‘t come from imitation). En það sem skiptir þó mestu máli er að gera sér grein fyrir bæði styrkleikum og veikleikum hjá teyminu í heild,hvernig hægt er spila réttum hlutum fram á á réttum tíma og hvernig er hægt að verjast röngum hlutum á röngum tíma.
Þau fyrirtæki sem ná óviðjafnanlegum árangri gera það ekki með því að elta samkeppnisaðilana heldur með því að skapa sér sérstöðu til að taka forystu. Gott dæmi um slíkt fyrirtæki er Uber sem var stofnað árið 2010. Uber er vefþjónusta sem tengir fólk saman í gegnum farsímaforrit og gerir því kleift að bóka bíl og allskyns heimsendingu á mat og öðrum varningi. Félagið nýtir svipaða innviði og margir Íslendingar þekkja frá Airbnb. Uber hefur frá stofnun mætt ýmsum ljónum á vegi sínum bæði frá samkeppnisaðilum sem og yfirvöldum. Það hefur kostað fyrirtækið gríðarlega fjármuni og tafið þróun. En nú er þjónusta fyrirtækisins í boði í 70 löndum heims, fjöldi viðskiptavina telur 93 milljónir og fjöldi bílstjóra er um 3,5 milljónir. Uber er einstök þjónusta sem tekur hrollinn af því að setjast upp í leigubíl og vita ekkert hvað ferðin muni kosti þegar á áfangastað er komið. Þegar þú pantar Uber býður bílstjórinn í ferðina og þú samþykkir verðið fyrirfram og borgar. Áður enn þú sest upp í bílinn veistu hvernig bíll það er sem kemur og sækir þig, hvað bílstjórinn heitir og hvernig skor hann hefur fengið frá fyrri viðskiptavinum auk áætlaðs ferðatíma.. Allt þetta er svo sýnilegt í farsímaforritinu frá upphafi til enda. Ef þú,sem ég reyndar lenti í sjálf, í París gleymir einhverju í bílnum er ekkert mál að endurheimta það þar sem þú veist allt um bílstjórann og bílinn og allt ferlið er til á skrá hjá Uber. Þessu fylgja þægindi svo ekki sé talað um öryggi.
Þess ber þó að geta að ferðin til sérstöðu er ekki án áskorana. Það krefst hugrekkis að ögra venjum og standast gagnrýni efasemdamanna svo ekki sé minnst á að ávinna og viðhalda trausti fjárfesta. En til þess að ná árangri umfram hið hefðbundna er það leiðin sem þarf að fara. Stofnandi Uber, Travis Kalanick, hefur sama viðhorf til verkefna sinna og þeir sem taka þátt í erfiðustu íþróttakeppni í heimi. Þú þarft að gefa allt sem þú átt og meira enn það til þess að ná árangri umfram hið hefðbunda og fyrst og fremst ekki gefast upp eða eins og Travis Kalanick orðar það „Eina leiðin til þess að ná árangri er einfaldlega sú að gefast ekki upp“. Þetta á ekki síður við keppnina Tour de France. Að allri undirbúningsvinnu, þjálfun og skipulagningu lokinni, er það þrautseigjan á endasprettinum sem gildir. Þar skilur á milli þeirra sem vinna og tapa.