Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Íslenskur vogunarsjóður fjárfestir í Bretlandi og Bandaríkjunum en horfir einnig til Indlands.
Helga Viðarsdóttir hefur rekið fjárfestingarsjóðinn Spak Invest síðan árið 2021 með mjög góðum árangri, en ávöxtun eignanna er 46% á tímabilinu. Frá síðustu áramótum hefur eigið féð hækkað hækkað um 30%.
Sjóðurinn, sem er bara opinn fagfjárfestum, kaupir eingöngu í skráðum bandarískum og breskum hlutafélögum. Lágmarks fjárfesting er 10 milljónir króna.
Aðspurð segir Helga í samtali við Morgunblaðið að horfurnar á bandarískum hlutabréfamarkaði séu góðar. „Þær eru mjög góðar, a.m.k. fyrir þau fyrirtæki sem ég hef fjárfest í,“ segir Helga. „Megnið af fjárfestingum Spaks Invest er í Bandaríkjunum, markaði sem ég hef fulla trú á til lengri tíma.“
Hún segir að Bretland hafi ekki verið í góðri stöðu síðustu ár eftir útgönguna úr Evrópusambandinu, Brexit og covid-faraldurinn. „Hagvöxtur í landinu hefur verið lítill eftir þessa atburði.“
Spurð um álit á horfum á meginlandi Evrópu til samanburðar segir Helga að álfan sé erfiður markaður. „Það er lítill hagvöxtur. Sem dæmi er eitt fyrirtæki á þýska DAX-hlutabréfamarkaðinum með 42% af ávöxtun síðasta árs, tæknirisinn SAP. Og ekki nóg með það heldur áttu sjö fyrirtæki níutíu prósent af ávöxtuninni og eru 10% af markaðsvirðinu í kauphöllinni. Þannig að dreifingin er ákaflega lítil.“
Óvirkir sjóðir skekkja
Helga segir að óvirkir vísitölusjóðir (EFTs) hafi í auknum mæli skekkt markaði. „Ég hvet til virkrar stýringar á fjárfestingum. Óvirkir vísitölusjóðir hafa í auknum mæli skekkt markaðinn og fjárfestar sem setja fé í þá eru ekki að taka þá ábyrgð sem felst í að ávaxta fjármagn annarra. Hér á landi er of algengt að fjármagni sé varið í svokallaða sjóðasjóði, bæði hjá fjármálastofnunum og lífeyrissjóðum. Slík nálgun felur í sér verulega áhættu, þar sem óvirku ETF-sjóðirnir úthluta fjármagni í fyrirtæki eftir markaðsvirði þeirra. Þegar markaðsvirði þessara fyrirtækja hækkar rennur enn meira fé inn í þau, án þess að tekið sé tillit til undirliggjandi virðis, “ útskýrir Helga.
Hún segir þetta hafa leitt til þess að bæði bandaríska S&P 500-vísitalan og DAX-vísitalan í Þýskalandi hafi orðið mjög þungamiðaðar í kringum örfá fyrirtæki. „Árið 2024 stóð Magnificent 7-hópurinn svokallaði, Apple, Nvidia, Microsoft, Amazon, Tesla, Alphabet og Meta, fyrir um 54% af allri ávöxtun S&P. Þar af átti Nvidia einn stærsta hlutinn,“ útskýrir Helga og bætir við að í Þýskalandi hafi myndin verið enn einhæfari eins og áður sagði. „Svona samþjöppun er bein afleiðing óvirkrar stýringar og aukinnar fjarlægðar milli markaðsverðs og raunverulegs virðis – og í henni felst umtalsverð áhætta.“
Spurð að því hvort til greina komi að fjárfesta utan Bretlands og Bandaríkjanna á næstu misserum nefnir Helga Indland sem dæmi þó tækifærin séu vissulega víða og fjárfestingarstefna Spaks Invest leyfi fjárfestingar hvar sem er í heiminum utan Íslands. „Markmið Narendra Modi forseta Indlands er að gera landið að þróuðu ríki. Þarna eru gríðarleg tækifæri. Indland er fjölmennasta land í heimi og hlutfall ungs fólks mjög hátt. Akkilesarhællinn er lágt menntunarstig. Í landinu er fullt af góðum fyrirtækjum sem ég er byrjuð að fylgjast með. Það er þó ákveðið vandamál að ríkið á enn stóra hluti í mörgum þeirra.“
Almennt segir Helga að mestu skipti í fjárfestingum að vinna með aðgengileg og traust gögn. Þar standi bandarískur og breskur markaður sig vel enda eru markaðir gagnsæir og fjölbreyttir. Þetta gerir greiningar dýpri og ákvarðanir öruggari.
Um tegund sjóðsins Spaks Invest segir Helga að hann megi flokka sem vogunarsjóð. „Vogunarsjóðir eru með hærri áhættuprófíl en aðrir sjóðir. Þeir geta einnig stundað virðisfjárfestingar eins og ég, með lægri áhættu.“
Skýr stefna
Hún segir að fjárfestingarstefna Spaks Invest sé skýr. Sjóðurinn fylgi ákveðnum reglum eins og að tilkynna verður allar breytingar til hluthafa með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. „Vegna þess að sjóðurinn er 100% hreyfanlegur (e. liquid) þá getur þú sem hluthafi látið vita ef þú ert óánægður og tekið fjármuni út. Ég hef svo 2-3 daga til að greiða. Ég hef haldið öllum mínum fjárfestum þrátt fyrir styrjöld í Úkraínu, heimsfaraldur og núna síðast óútreiknanlegan forseta í Bandaríkjunum. Þannig að hluthafar hafa allir treyst því að við höldum okkar fjárfestingarstefnu þrátt fyrir breytingar á ytri aðstæðum.“
Hún segir mikilvægt að engar breytingar verði á áhættuprófíl sjóðsins nema með fullri vitneskju hluthafa en áhættuprófíll Spaks Invest er mjög lágur að hennar sögn. „Við erum meira í vel skilgreindum fyrirtækjum sem skulda lítið. Við fjárfestum ekki í flugfélögum, hátækni- eða líftæknifyrirækjum, sem hafa meiri áhættu. Það er mjög gott að hafa línurnar skýrar.“
Hluti af forsendum sjóðsins er að sjóðstjórinn eigi sjálfur eitthvað undir. „Ég er með mitt eigið fé í sjóðnum. Ég vildi búa til sjóð sem ég hefði sjálf áhuga á að fjárfesta í og gæti hætt hvenær sem ég vildi. Þá vildi ég að sjóðstjórinn fylgdi eigin fjárfestingarstefnu og hún væri alltaf uppi á borðinu.
Það er gríðarlega gott samtal milli mín og annarra hluthafa. Þeir eru mjög vel inni í öllum málum og fá að vita bæði af því góða og slæma.“
Blaðamaður biður Helgu að uppljóstra um einhver fyrirtæki í safninu. Fyrst nefnir hún bandarísku leigubílaþjónustuna Uber. „Það er fyrirtæki sem er með gríðarlega jákvæða nýtingu fjármagns. Forstjórinn, Dara Khosrowshahi, er líka mjög skemmtilegur. Þetta er Írani sem ólst upp í Bandaríkjunum og gerði góða hluti með ferðaþjónustufyrirtækið Expedia Group. Hann vill að ákvaraðanatökur séu láréttar fremur en lóðréttar.“
Helga nefnir einnig bandaríska fyrirtækið Stride sem heldur námskeið á netinu. „Þau bjóða sérsniðna kennslu fyrir fólk á öllum aldri, almenning, skóla og fyrirtæki og hafa verið að nýta sér gervigreind til að gera námið einstaklingsmiðaðra.“
Þriðja fyrirtækið sem Helga nefnir er breska fyrirtækið McBride sem framleiðir hreingerningarvörur. „Það er gríðarlega sterkt félag með góðar dreifileiðir og selur út um allan heim.“
967 milljónir
Helga segir að Spakur eigi hluti í fimmtán fyrirtækjum. Hluthafar eru þrjátíu og einn. Stærð sjóðsins er 967 milljónir króna. „Það er ekki endilega markmið að eiga í mörgum félögum en dreifing er nauðsynleg. Þú þarft að tryggja að þú hafir yfirsýn og getir fylgst með öllum fjárfestingunum. Ef þú ert með fjármagn og finnur ekkert nýtt félag til að fjárfesta í þá bætirðu bara í eitthvað af þeim sem þú átt í nú þegar.“
Aðspurð segir Helga að Spakur minnki líka stöður. „Við gerum það bara til að vera ekki of þung í einhverjum einum geira. Ef félögum gengu vel þá hækkar hlutfall þeirra í eignasafninu. Það getur vitaskuld verið erfitt að taka ákvörðun um að selja stjörnurnar,“ segir Helga og brosir.
Spurð að því af hverju hún hafi farið út í þennan bransa, segist Helga alltaf hafa haft djúpan áhuga á að skilja hvernig fyrirtæki skapa verðmæti – og hvers vegna sumum tekst það ár eftir ár en öðrum ekki. „Þetta er í raun gáta sem ég hef glímt við í mörg ár. Með rekstri Spaks hef ég fengið tækifæri til þess að fjárfesta á grundvelli þessara greininga. Fyrir mér er fjárfestingaheimurinn eins og stórt púsluspil þar sem stykkin breytast í takt við efnahag, tækni og mannlega hegðun.“
Spurð nánar út í hvernig þessi púsl raðast saman segir Helga að markmið Spaks Invest sé skýrt. „Það er að skapa langtímaávöxtun fyrir fjárfesta sjóðsins. „Það gerum við með því að velja fyrirtæki með traustan rekstrargrunn og sterkt greiðsluflæði, mælanlegt samkeppnisforskot, starfsemi á vaxandi mörkuðum og öfluga stjórnendur. Það er hér sem vandað verðmat skiptir miklu máli þar sem markmiðið er ávallt það að finna fjárfestingarkosti sem eru vanmetnir á markaði miðað við innra virði. Mitt hlutverk sem sjóðstjóra er að skilja sauðina frá höfrunum, leita uppi þessi fyrirtæki og treysta á að áætlanir þeirra raungerist – þrátt fyrir hávaðann sem yfirgnæfir alla skynsemi á mörkuðum.“
Um það af hverju þessi fjárfestingarstefna varð fyrir valinu segir Helga að virðisfjárfesingar snúist í sinni einföldustu mynd um að kaupa gæðafyrirtæki á verði sem er lægra en raunverulegt virði þeirra – og halda þeim þar til markaðurinn sér það sama. „Virðisfjárfesting hefur þann kost að hún byggist á þolinmæði og aga frekar en spádómum um næstu viku. Ég kýs frekar að fylgja stefnu sem hefur staðist áratugi af prófunum heldur en að elta nýjustu tískubylgjuna á markaðnum. Ef þú berð gæfu til þess að velja góð fyrirtæki á sanngjörnu verði, þá vinnur tíminn oftast með þér.“
Spurð að lokum um helstu áskoranir á sl. fjórum árum segir Helga að það sé helst að halda fókus. „Stærsta áskorunin hefur verið að halda sig við fyrirfram ákveðið fjárfestingaferli, jafnvel þegar hávaði og tímabundnar sveiflur gera það freistandi að bregðast við.“

Spakur Invest á hluti í fimmtán félögum, þ. á m. Uber, Stride og McBride. – Morgunblaðið/Eyþór