Helga er alin upp við fluguveiði og hefur reynslu sem leiðsögumaður í Hítará og Selá.
Fjármagnskostnaður skiptir miklu máli fyrir val á hlutabréfum, líkt og hvort betra sé að kaupa vaxtarfyrirtæki eða virðisfyrirtæki. Vaxtafyrirtæki byggja eins og nafnið gefur til kynna á áætlunum um framtíðarvöxt. Slík fyrirtæki greiða oftast ekki út arð heldur plægja allar tekjur inn fjárfestingar eða rekstur sem er ætlað að skila ábata að ákveðnum tíma liðnum. Vaxtarfyrirtæki geta verið áhugaverður kostur hjá fjárfestum þegar lánsfé er ódýrt. Það felur í sér að fórnarkostnaður þess að bíða eftir ábatanum er lægri. Þá felur vöxtur yfirleitt í sér fjárfestingar eða fjármagnsþörf sem verður dýrari með hærri vöxtum. Til að mynda hafa svokölluð FAANG hlutabréf (Facebook, Amazon, Apple, Netflix og Google) sem flokkast undir vaxtafyrirtæki ollið 19% falli á S&P vísitölunni árið 2022 sem telst vera versta ár vísitölunnar frá 2008.
Fjárfesting í virðisfyrirtækjum er stefna sem felur tvennt í sér. Í fyrsta lagi að keyptir séu hlutir í fyrirtækjum með sterkt undirliggjandi greiðsluflæði og oftast stöðugar arðgreiðslur. Í öðru lagi fókus á að kaupa hlutabréf með hagstæðar verðkennitölur sem fela í sér hærra undirliggjandi virði en markaðsvirði þegar kaupin eiga sér stað. Það má segja að verið sé að kaupa fyrirtæki sem eru á afslætti. Stefnan byggir á þeirri trú að stundum fái fyrirtæki ekki sanngjarna meðferð á mörkuðum vegna tískusveiflna, almenns efnahagsóróa eða svartsýni. Virðisfjárfestar leita þess vegna að hlutabréfum sem hafa sterka grundvallarþætti, svo sem gott samkeppnisforskot, sterkan efnahagsreikning, góða stjórnendur og sögu um stöðugleika. Þeir einbeita sér að fyrirtækjum sem hafa gefið hluthöfum stöðuga ávöxtun til lengri tíma.
Fjárfesting í virðisfyrirtækjum hefur í gegnum tíðina verið talin öruggari og áreiðanlegri leið til að ávaxta fjármagn fremur en fjárfesting í vaxtafyrirtækjum. Vaxtarfyrirtæki eru venjulega hlutabréf fyrirtækja sem búist er við að muni vaxa hratt í náinni framtíð en slíkt mat er alltaf óvissu háð. Framtíðin verður aldrei eins og búist er við. Þó að vaxtafyrirtæki geti verið mjög arðbær á tímum bolamarkaðar (e. bull market), geta þau einnig verið mjög sveiflukennd og áhættusöm á tímum bjarnarmarkaðar (e. bear market) . Fjárfesting í virðisfyrirtækjum hefur aftur á móti tilhneigingu til að veita stöðuga ávöxtun með minni sveiflum.
Markaðir eru enn að jafna sig eftir niðursveiflu af völdum heimsfaraldurs og því vænlegra að að leggja áherslu á stöðugari fjárfestingar sem veita stöðugri ávöxtun. Þá er fjármagnskostnaður á leið upp alls staðar í heiminum. Sérfræðingar í virðisfjárfestingum sjá mikil tækifæri við núverandi markaðsaðstæður þar sem hlutabréf margra fyrirtækja eru lægri og því mörg kauptækifæri.