Undanfarnar vikur og mánuði hafa áhyggjur af tollum og væntanlegu viðskiptastríði fyllt fyrirsagnir fjölmiðla. Fjárfestar eru skiljanlega órólegir vegna yfirvofandi tolla og hlutabréfaverð hefur fallið nær alls staðar í heiminum, þar með talið hér á Íslandi. Ljóst er að tollar munu trufla starfsemi fyrirtækja og auka kostnað í rekstri þeirra. Þá er einnig viðbúið að verðbólga og vextir hækki en eftirspurn minnki. Gott og vel. Þeirri spurningu má vitaskuld velta upp hve mikið hlutabréfaverð þurfi að lækka til þess að almenn kauptækifæri skapist. En öllu mikilvægari er þó sú spurning hvort tollar og viðskiptastríð hafi sömu áhrif á öll skráð fyrirtæki til lengri tíma, líkt og markaðurinn virðist gera ráð fyrir. Hér má til að mynda nefna að fram til þessa hefur tollasetning Bandaríkjastjórnar miðast við kaup á vörum, en þjónustuviðskipti eru enn alveg frjáls. Þá er einnig mismunandi hvort fyrirtæki hafi gott plan B eða C til þess að bregðast við tollum og öðrum viðskiptahindrunum.

Hlutabréfamarkaðir hafa vissulega áður reynt að verðleggja óvænt og fordæmalaus áföll. Hér mætti nefna fjármálakrísuna miklu haustið 2008 og Covid-19 faraldurinn sem hófst fyrir akkúrat fimm árum síðan. Þessar tvær stóru verðleiðréttingar hljóta að fela í sér leiðarvísi í gegnum þá óvissu sem við stöndum frammi fyrir núna með tolla- og viðskiptastríð. Það er minnsta kosti skoðun Howard Marks sem er bæði stofnandi og stjórnandi fjárfestingasjóðsins Oaktree Capital Management. Sá sjóður er nú stærsti kaupandi að uppnámseignum (e. distressed assets) í heiminum. Marks þessi ritaði grein þann 19. september 2008 rétt eftir fall Lehman bræðra sem bar titilinn: Enginn veit (e. Nobody knows). Síðan, í mars 2020 skrifaði hann framhaldsgrein sem ber titillinn: Enginn veit II. Nú þann 9. apríl, réttri viku eftir Frelsisdaginn mikla þegar Bandaríkin settu tolla á alla heimsbyggðina, kvaddi Marks sér aftur hljóðs með ritsmíð sem titillinn: Enginn veit (enn og aftur).

Skilaboð Marks í þessum þremur greinum eru þau sömu: Fjárfestar verða að taka óvissu sem gefinni. Hafi fólk álitið að framtíðin væri örugg, hefur það verið á algerum á villigötum. Sama á við um þá fjárfesta sem hafa talið sig geta greint framtíðina. Mikilvægt er að fjárfestar viðurkenni fáfræði sína og sætti sig við viðvarandi óvissu. Hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig – hvort óttinn við að tapa peningum sé sterkari en trúin á að hagnast verulega þegar framvindubrot á sér stað á mörkuðum. Slíkar ákvarðanir verður að taka með hliðsjón af bæði áhættuvilja og innsæi hvers og eins. Reynslan sýnir að miklar verðlækkanir yfir línuna, líkt og árin 2008 og 2020, hafa skapað gríðarleg tækifæri til þess að hagnast. En tímasetningar skipta öllu máli. Reyndin er nefnilega sú að þegar óróleiki grípur um sig á markaði, eru öll félög seld niður án nokkurrar aðgreiningar og án tillits til þess hvernig reksturinn stendur. Það er vegna þess hve fjárfestar þola illa óvissu eða breytingar. Síðan, þegar frá líður verða sauðirnir skildir frá höfrunum. Það verður brátt ljóst að mörgum fyrirtækjum hefur í raun verið refsað að ástæðulausu.

Kaupum á hlutabréfum á fallandi markaði hefur stundum verið líkt við að grípa hníf í frjálsu falli – það getur gengið upp en líka valdið slæmum áverkum. Ástæðan er sú að samfara öllum breytingum verða til sigurvegarar og aðrir sem tapa. Jafnvel slæmar fréttir geta haft jákvæð áhrif á sumar atvinnugreinar og ákveðinn rekstur þegar til framtíðar er litið. Sum fyrirtæki, atvinnugreinar og jafnvel heilar þjóðir ná nefnilega að bregðast betur við breytingum en vonir höfðu staðið til.

Við Íslendingar ættum svo sannarlega að tengja við þetta, svo oft sem við höfum orðið fyrir miklum áföllum en samt náð vopnum okkar á ný. Við náðum að vinna okkur út úr fjármálaáfallinu mikla 2008 og með miklum hagvexti síðustu fjögur árin höfum við náð að vinna til baka framleiðslutapið sem við urðum fyrir á Covid-19 tímanum. Við munum á sama hátt finna leiðir til að að vinna okkur út úr þessu tollastríði. Kannski er ástæðan sú að við sem þjóð höfum náð að tileinka okkur þetta viðhorf sem Marks leggur til – að viðurkenna óvissuna og sætta okkur við hana.

Ég og hundurinn minn Balto að njóta vetrarsólarinnar. Náttúran lofar ekki vissu – aðeins fegurð..