Bandarísk virðisfélög hafa reynst langbesta langtímafjárfestingin þrátt fyrir sveiflur og erfiða daga á markaði og eru kjarninn í fjárfestingastefnu Spakur Invest. Helga Viðarsdóttir, stofnaði sérhæfða hlutabréfasjóðinn Spakur Invest árið 2021 og bendir á að virðisfélög, fyrirtæki sem eru vanmetin á markaði miðað við innra virði sitt, standi sig betur til lengri tíma en tískufyrirtæki í tækni- og vaxtargeiranum.

„Það sem skiptir mestu máli er tíminn sem þú eyðir á markaði, ekki að tímasetja kaup. Góðir dagar jafna út þá slæmu og þeir sem halda ró sinni uppskera mest,“ segir Helga í samtali við Morgunblaðið.

Helga styðst m.a. við gögn frá Fama-French og Morningstar til að sýna hvernig virðisfélög skila betri árlegri ávöxtun en vaxtarfyrirtæki, sérstaklega í kjölfar kreppu eða niðursveiflu. „Eftir tæknibóluna, fjármálahrunið og heimsfaraldurinn 2020 hefur alltaf komið aftur að sama kjarna að félög með sterkan rekstrargrunn, arðsemi og verðlagningarvald lifa af,“ segir Helga.

Sem dæmi nefnir hún að frá 2009 til 2019 skiluðu virðisfélög um 15% árlegri ávöxtun. „Árin 2022 og 2023 sýndu þetta skýrt þegar hækkandi vextir bitu á ofmetin vaxtarfyrirtæki, en traust félög með gott lausafé og einfaldan rekstur héldu velli.“

Helga rekur í dag Spakur Invest, sem hún stofnaði og stýrir sem aðalframkvæmdastjóri. Sjóðurinn hefur einblínt á bandarísk virðisfélög og hefur skilað 23,77% ávöxtun frá áramótum (YTD), samkvæmt upplýsingum sem hún veitir í samtali við Morgunblaðið. „Við fjárfestum í traustum félögum sem skila rekstrarhagnaði og greiða arð – þar sem verðmiðinn á hlutabréfinu er hagstæður,“ segir hún.

Fjárfestar á borð við Warren Buffett hafi ekki byggt auð sinn á nýjustu tækni heldur á félögum eins og Coca-Cola og American Express. „Mannleg hegðun breytist ekki, ótti lækkar verð á góðum fyrirtækjum og þolinmóðir fjárfestar uppskera þegar skynsemin snýr aftur,“ segir Helga.
Grein í Morgunblaðinu og mbl.is 

Bandarísk virðisfélög hafa reynst besta langtímafjárfestingin þrátt fyrir sveiflur og erfiða daga á markaði, segir Helga Viðarsdóttir. 
mbl.is/Eggert Jóhannesson