Í fornum sögum segir að norrænir bardagakappar hafi trúað því að ef þeir féllu í bardaga biði þeirra vist sem einherjar í Valhöll með Óðni. Í Valhöll var ávallt sama prógrammið. Einherjar gengu út á hverjum morgni og börðust. Að bardaganum loknum stóðu þeir allir heilir upp og gengu til veislu þar sem þeir átu, drukku mjöð og skemmtu sér fram eftir nóttu. En snemma næsta dag risu þeir upp fullfrískir og sprækir og hófu aftur að berjast. Hægt er að leiða getum að því að vonin um svo skemmtilegt framhaldslíf hafi haft veruleg áhrif á áhættumat manna á fyrri tíð þegar kom að vopnuðum átökum. Ávinningurinn var mikill, áhættan takmörkuð og hugrekkið því nær rökrétt afleiðing.
Stundum er líkt og fjárfestingar á hlutabréfamarkaði fylgi þessari Valhallar-nálgun þar sem aðeins er horft á áhættu sem leið til að fá skjótfenginn gróða. Þetta er þó ekki nálgun Spaks Invest. Spakur byggir ekki á að því að standa eða falla í einum glæsilegum bardaga og væntingum um framhaldslíf í Valhöll, heldur að standa af sér marga bardaga – og skila fjárfestum stöðugri og varanlegri ávöxtun yfir tíma. Sjóðurinn byggir fjárfestingar sínar á langtímasýn og leggur áherslu á gæðafyrirtæki með skýrt og varanlegt samkeppnisforskot. Spakur Invest er hvorki skuldsettur né stundar skortsölu og áhættu í fjárfestingum sjóðsins er haldið í lágmarki.
Sjóðurinn skilaði þó mjög sterkri ávöxtun á árinu 2025. Þegar árið er skoðað í heild skilaði sjóðurinn 32,85% ávöxtun eftir kostnað, á meðan S&P 500 skilaði 16,39% og íslenska OMXI15 vísitalan lækkaði um 2,6%. Frá upphafi hefur árleg ávöxtun Spaks Invest því verið 10,74%.
Rétt er þó að taka fram að hluti ávöxtunar ársins 2025 endurspeglar sveiflur í lok árs 2024. Ávöxtun sjóðsins fór úr um 10% í lok nóvember niður í um 1% í lok desember, áður en hún var aftur komin í um 10% í lok janúar 2025. Þar sem sjóðurinn ber engan aukakostnað um áramót höfðu þessar tímabundnu sveiflur engin áhrif á stöðu fjárfesta. Í raun mætti því færa um 10 prósentustig af ávöxtun ársins 2025 yfir á árið 2024.
Árangur ársins 2025 er ekki afleiðing aukinnar áhættutöku eða tilrauna til að elta markaðinn, heldur niðurstaða skýrrar fjárfestingastefnu. Spakur Invest byggir á því að finna fyrirtæki sem talin eru geta skilað stöðugri og sterkri afkomu til lengri tíma sem tryggja fjárfestum góða og varanlega ávöxtun.