Það tók Guð sex daga að skapa heiminn – en svo tók hann hvíld á sjöunda degi. Það var engin tilviljun. Talan sjö er heilög í öllum trúarbrögðum og kemur aftur og aftur fyrir í ævintýrum og goðsögnum. Einu sinni var talað um sjö undur veraldar, heimshöfin eru sjö, hinar svokölluðu dauðasyndir eru sjö svo ekki sé minnst á dvergana sjö. Það eru sjö dagar í vikunni, sjö tónar í tónlist, sjö litir í regnboganum og svo mætti lengi áfram telja. Talan er auðsjáanlega sterkt viðmið í vitund fólks.

Talan sjö skiptir einnig máli á bandarískum hlutabréfamarkaði. Þar snýst allt um hin sjö frábæru fyrirtæki (e. the magnificent seven) sem eru öll upprunnin í Bandaríkjunum. Þetta eru: Nvidia, Microsoft, Apple, Amazon, Alphabet, Tesla, og Meta. Verð þessara sjö fyrirtækja hækkaði 111% á síðasta ári samanborið við 25% hækkun S&P 500 vísitölunnar á sama tíma. Markaðsvirði þessara sjö fyrirtækja er nú um 30% af S&P 500 vísitölunni. En vísitalan sjálf er sett saman af 500 stærstu (að virði) skráðu fyrirtækjum á bandarískum hlutabréfamarkaði. Eitt af þessum sjö fyrirtækjum, það er Microsoft, er verðmætara en heildarmarkaðsvirði bresku FTSE100 (Footsie) verðbréfavísitölunnar. FTSE 100 er byggð 100 verðmætustu fyrirtækjunum sem eru skráð í kauphöllina í London.

Þessi sjö frábæru fyrirtæki hafa verið helsti drifkraftur S&P 500 vísitölunnar í töluverðan tíma. Hér mætti nefna að Microsoft hefur skilað um 1100% ávöxtun síðasta áratug, Apple hefur hækkað um 1000% á sama tíma og Meta (sem rekur Facebook) hefur hækkað um 840%. Það er því von að spurt sé; hver er galdurinn við töluna sjö?

Talan sjö var mér ofarlega í huga þar sem ég var stödd í neðanjarðarlest í París þann 7. apríl síðastliðinn. Þetta var afmælisdagur föður míns heitins, Viðars Magnússonar, og ég ætlaði mér að hlaupa heilt maraþon sem er sex sinnum sjö kílómetrar. Ég var búin að skoða vel hvar ég ætti að fara úr lestinni til þess að vera sem næst startlínunni. Það er ekki óskandi að þurfa að ganga mjög langt að henni þegar þú átt eftir að hlaupa rúma 42 kílómetra. Það var fullt af fólki í lestinni og við hlaupararnir vorum allir með númer framan á okkur þar sem þjóðfáninn var einnig sýnilegur. Mitt númer bar íslenska fánann. Ég var búin að taka eftir Frökkum í lestinni og fannst það góð aðferðafræði að bíða og sjá á hvaða stöð þau færu út. Heimamenn vita svona hluti. Þau fóru ekki út þar sem ég hafði verið búin að ákveða að fara út. Þannig að ég beið, fór svo ókyrrast og spurði þau loks hvar þau ætluðu út. Þá sögðu þau að þau væru ekki viss en ætluðu sér að nota sömu aðferð og ég og fara út þegar allir hinir sem báru hlaupanúmer færu út úr lestinni. Þetta er nokkuð algeng aðferð, þ.e. að telja að aðrir hafi gert heimavinnuna og að best sé að gera eins og þeir. Það sama á einnig við á hlutabréfamarkaði.

Víkjum nú aftur að þeirri spurningu hvað sé sérstakt við töluna sjö. Þessari spurningu var mögulega svarað í frægri fræðigrein í sálfræði árið 1956 eftir George A. Miller (e. The Magical Number Seven). Hann sýndi fram á að skammtímaminni okkar hefur aðeins rými fyrir sjö hluti og að einstaklingur geti eingöngu greint sjö flokka í mengi af upplýsingum. Vinnslugeta heilans er því kannski ein ástæð fyrir vinsældum tölunnar sjö. Í þessu sambandi má minna á að árið 2000 voru önnur sjö fyrirtæki sem voru kölluð súper sjö „the Super Seven“. Þessi fyrirtæki drógu að sér fjárfesta og hækkuðu mjög hratt á tímabili en síðan var hápunktinum náð. Og þá féllu þau í verði.

Oft er talað um að sagan endurtaki sig. Það er mikið til í því en þó er kannski nákvæmara að segja að hún rími. Það verður því áhugavert að fylgjast með þessum sjö hástökkvurum. Það er raunar ótrúlegt ef ekki ómögulegt að þau nái að halda sömu siglingu áfram. Þau eru einfaldlega orðin svo stór. Mun líklegra er að það fari eins fyrir hinum sjö frábæru og súper sjö á sínum tíma. Að lokum hlýtur markaðsvirði þeirra að lenda út af korti við aðrar almennar hagstærðir og fjárfestar sem kaupa í þeim lenda úti á rangri lestarstöð ásamt öllum hinum sem keyptu í þeim.

Svo má minna á að rúmlega 2000 fyrirtæki eru skráð í kauphöllinni í New York. Það er því mikilvægt að huga að góðri dreifingu og ekki setja öll eggin í sömu körfuna. Best er auðvitað að kaupa í félögum sem eiga eftir að hækka fremur en þau sem eru búinn að hækka. Og aukinheldur er mjög mikilvægt velja fyrirtæki sem byggja á raunverulegu virðismati.

Helga ásamt dóttur sinni Freyju við Sigurbogann í París eftir að hafa hlaupið heilt maraþon þann 7. apríl 2024.