Hér á fyrri tíð var ávallt þagnarstund á heimilum Íslendinga þegar veðurfregnir voru lesnar í útvarpinu á eftir fréttum. Það var á þeim tíma sem þjóðin lifði á landbúnaði og fiskveiðum og veðrið skipti öllu. Enn í dag erum við mjög háð veðráttunni. Veðurspárnar hafa batnað með tölvum og tækni en eftir sem áður er íslensk veðrátta ófyrirsjáanleg. Væri lífið ekki auðveldara ef við vissum veðrið fram í tímann? Jafnvel næstu daga, vikur og mánuði? Við myndum skipuleggja allskonar ferðir og samkomur í kringum slíka vissu eða kannski bara mála þakið.

Við Íslendingar erum vitaskuld ýmsu vön þegar kemur að veðrinu. Óvissan er eiginlega það eina sem er alltaf öruggt og allar áætlanir okkar taka mið af því. Við setjum upp stórt partýtjald úti í garði fyrir brúðkaupsveisluna ef það færi að rigna og mörg okkar erum með skóflur í bílunum okkar – ef ske kynni að við þyrftum að moka snjó. Við erum yfirleitt búin undir það versta. Ef hugmyndin er að keyra á Ísafjörð í janúar er betra að vera á fjórhjóladrifnum bíl, á nagladekkjum og með stóra og góða snjóskóflu í skottinu.

Það er vitaskuld ekki sérlega frumlegt að líkja veðrinu við hlutabréfamarkaðinn og bílnum við fyrirtæki. En þetta er samt gagnleg samlíking. Mjög margir eyða tíma sínum í það að reyna að spá fyrir um markaðinn sem gefur álíka árangur og að búa til langtíma veðurspár. Þetta er röng nálgun. Í stað þess að einblína á veðrið ættum við að hugsa um farartækið sem á koma okkur á áfangastað. Það er að segja að eyða lengri tíma í að velja bílinn vel fremur enn að liggja yfir veðurspám. Að sama skapi er lykillinn að því að ná árangri í fjárfestingum sá að verja tíma sínum í að velja góð fyrirtæki sem eru vel í stakk búin til þess að þola hæðir og lægðir á markaðinum.

Ljóst er að það er ekki skortur á upplýsingum sem takmarkar spár fram í tímann. Ég get sjálf vottað það sem fjárfestir að upplýsingastreymið til þeirra sem eru að kaupa og selja hlutabréf er gríðarlegt. Það er ekki á færi venjulegs manns að komast yfir allar þær upplýsingar sem allskonar fréttaveitur dæla út um heimsmálin sem gætu mögulega haft áhrif á hlutabréfaverð. Hættan er sú að það muni ekki verða farsælt til lengri tíma að reyna að bregðast við heimsfréttum eða fjárfesta eftir því hvernig hlutabréfamarkaðurinn hagar sér hverju sinni. Staðan er samt sú að umræðan snýst oftast um veðrið (hlutabréfamarkaðinn) en ekki bílinn (fyrirtækið). Þegar fjallað er um rekstur fyrirtækja í fjölmiðlum eru dregnar fram örfáar lykilstærðir sem eru frá síðasta ársuppgjöri og segja því ansi lítið um núverandi eða framtíðarrekstur fyrirtækisins, hvað þá að rekstur fyrirtækisins sé settur í samhengi við önnur sambærileg fyrirtæki. Slíkur samanburður myndi segja mun meira um hvernig fyrirtækið er statt, einkum og sér í lagi ef sá samanburður yrði einnig settur í samhengi við erlend fyrirtæki.

Það er margt sem getur haft áhrif á verð á hlutabréfum. Og hlutabréfamarkaðurinn er ekki alltaf samkvæmur sjálfum sér – a.m.k. lítur það ekki þannig út. Hlutabréfaverð getur hækkað þegar fólk fer að hafa trú á fyrirtæki eftir að eitthvað gerist, hjarðhegðun verður til og það getur lækkað ef stór hluthafi einfaldlega ákveður að selja hlut sinn í félaginu. Það sem kemur oft mest á óvart er þegar fyrirtæki skila góðum árangri fyrir ákveðið tímabil, en gefa síðan gjarnan eftir. Þetta stafar yfirleitt af því að þrátt fyrir góðan árangur telja markaðsöflin sig sjá – með áherslu á telja – að eitthvað í framtíðinni muni hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins. Þetta getur verið hækkun vaxta, breyting á neysluvenjum, aukin samkeppni, breyting á löggjöf sem hefur áhrif á fyrirtækið og svo framvegis. Þetta getur líka verið öfugt, þ.e. fyrirtæki skilar slæmu uppgjöri en verð hlutabréfa þess hækkar. Ástæðan hér er sú sama – markaðsöflin telja sig sjá eitthvað í framtíðinni sem hefur áhrif á hlutabréfverð fyrirtækisins.

Í þessu sambandi er oft vitnað í Charlie Munger, fyrrum varaformann Berkshire Hathaway og langvarandi viðskiptafélaga Warren Buffets sem nýlega féll frá 99 ára. Hann setur í brennidepil að einbeita sér að því að skilja fyrirtæki (bílinn), hafa öryggi (tjaldið, nagladekkin og skóflan) og vera þolinmóður á markaðinum.

Það er því mikilvægt, þegar fólk ákveður að fjárfesta í fyrirtæki, að það skoði grunnrekstur félagsins og beri reksturinn saman við fyrirtæki í sambærilegum rekstri. Einnig er mikilvægt að það kanni hvernig fyrirtækið er búið undir áföll sem munu koma, eins og stríð, farsóttir, tæknibyltingar og efnahagsáföll.

Helga og hundurinn Balto á miðri Dalsheiði á Vestfjörðum í júlí 2021